Geiturnar okkar

Talið er að geitfé hafi fyrst borist til Íslands með landnámsmönnum og hafi verið hér án innblöndunar í um 1100 ár. Ekki er mikið vitað um stöðu íslenska geitfjárstofnsins fyrstu árhundruð Íslandsbyggðar, enda lítið fjallað um geitfé í rituðum heimildum. Þó er minnst á geitfé í fornbókmenntum til dæmis í Snorra-Eddu, Ljósvetningasögu og Landnámu. Í Snorra-Eddu er sagt frá því að þrumuguðinn Þór átti tvo hafra þá Tanngrisnir og Tanngnjóstur sem drógu vagninn hans. Þar segir einnig frá geitinni Heiðrúnu en úr spenum hennar rann mjöður mikill sem bardagamenn Valhallar drukku af góðri lyst. Örnefni dregin af geitum eru algeng um landið eins og til dæmis Geitafell, Geitasandur, Hafursá, Kiðafell og Kiðjaberg.

Fornleifafræðilegar greiningar á dýrabeinum sýna að á 9. og 10. öld voru geitur á flestum bæjum en þeim fór fækkandi eftir það. Við upphaf 13. aldar voru geitur orðnar sjaldgæfar en á móti fjölgaði sauðfé. Í dag finnast geitur í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum og er geitfjáreign afar dreifð. Geitastofninn telst vera í útrýmingarhættu en í árslok 2016 taldi stofninn 1188 vetrarfóðraðar geitur í 104 hjörðum.

Öðlist íslenski geitfjárstofninn hlutverk sem nytjastofn gæti það orðið sá stökkpallur sem hann þarf til að standa af sér þá ógn sem hann stendur andspænis í dag. Vinna þarf markvisst að rannsóknum á afurðum og leita leiða til að fjölga í stofninum og dreifa honum víðar um land en nú er. Ferðaþjónusta og geitfjárrækt fer vel saman og er geitur víða að finna á ferðaþjónustubæjum. Mikilvægt er einnig að fleiri stór bú, ræktunarbú, nái fótfestu eigi að tryggja stofninn í sessi. Skjóta þarf styrkum stoðum undir sæðissöfnun, frystingu og sæðingar. Með því má helst brjóta upp einangrun hópa innan stofnsins og sporna við hinni miklu skyldleikarækt sem hefur gengið mjög nærri stofninum. Sæðisbanki mun einnig þjóna sem mikilvægt öryggisnet verði stofninn fyrir verulegum skakkaföllum hvað varðar stofnstærð og erfðabreytileika.

Nytjar

Geitur virðast í upphafi fyrst og fremst haldnar til mjólkur- og kjötframleiðslu. Fiðan, skinnið, hornin og fitan (tólg) voru líka nýtt að einhverju leyti. Skinn geitanna, sem kallast stökur, var til dæmis notað sem rúmfatnaður, sem ábreiða á sæti hnakka, bókband, í skófatnað og húfur.

Í dag er framleitt kjöt, mjólkurvörur, snyrtivörur og band spunnið úr fiðu í afar smáum stíl. Þessar vörur seljast allar upp sem gefur vísbendingu um að verulega megi auka vöruframboðið. Íslenskar geitur hafa bæði strý og fiðu, fínleiki þess er mikill og heitir hún kasmír á erlendum tungum.

Geitkjöt er magurt en próteininnihald svipar til nautakjöts. Bragðgæði ákvarðast meðal annars af fóðurvali geitarinnar og aldri við slátrun. Tólgin hefur verið notuð í matargerð, til sápugerðar og sem krem. Hún hefur þótt góð fyrir þurra húð.

Eftirsókn eftir geitamjólk í Evrópu fer vaxandi vegna sérstæðra næringareiginleika hennar. Fitukúlurnar í mjólk geita eru minni en í kúamjólk sem gerir hana auðmeltari en kúamjólkurfitu. Fjöldinn allur af rannsóknum hefur verið gerður til að finna út hvort geitamjólkin sé betri kostur en kúamjólkin með tilliti til ofnæmis, en flestar niðurstöðurnar benda þó til að svo sé ekki, nema vitað sé hvað veldur ofnæminu. Vandinn liggur í því að bygging próteina í geitamjólk eru það lík próteinum í kúamjólk að ónæmiskerfið greinir þau ekki í sundur og bregst við líkt og um kúamjólk væri. Geitamjólk með litlu αs1-kaseini kallar þó síður fram ofnæmisviðbrögð.

Meðlimir

Geitfjáræktarfélagið heldur utan um allar framleiddar vörur og afurðir geitarinnar sem hægt er að nálgast og kaupa í gegnum vefinn.

Gerast meðlimur
Íslenska Geitin

Stjórn

Geitfjáræktarfélagið heldur utan um allar framleiddar vörur og afurðir geitarinnar sem hægt er að nálgast og kaupa í gegnum vefinn.