1. gr.

Félagið heitir Geitfjárræktarfélag Íslands, skammstafað GFFÍ.Heimili þess og varnarþing er heimili formanns á hverjum tíma.

2. gr.

Félagar geta orðið þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og eiga geitur svo og þeir sem sérstakan áhuga hafa á geitfjárrækt. Félagssvæðið er allt landið. Kjörgengi hafa allir 18 ára og eldri. Félagsgjöld skulu ákveðin af aðalfundi.

3.gr.

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna í sinni víðtækustu merkingu í tengslum við geitfjárhald. Markmiðum sínum hyggst félagið ná m.a. með því:

Að stuðla að verndun og viðhaldi íslenska geitfjárstofnsins og vinna að ræktun hans og nýtingu m.a. með kynningu og markaðsleit.

Að koma á framfæri sjónarmiðum félagsmanna í málum sem varða sameiginlega hagsmuni þeirra svo sem í kynbótum, verndun og nýtingu geitfjárstofnsins m.a. gagnvart ríkisvaldi og sveitarfélögum.

4. gr.

Stjórn GFFÍ fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Formaður skal kosinn á hverjum aðalfundi, en aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til þriggja ára í senn. Stjórn skiptir með sér verkum. Þá skal einnig kjósa á aðalfundi tvo varamenn og tvo skoðunarmenn reikninga félagsins til tveggja ára í senn, skulu þeir kostnir sitt árið hvor.

Formaður er fulltrúi félagsins á búnaðarþingi, en kjósa skal varamann á aðalfundi til þriggja ára í senn.

5.gr.

Málefnum félagsins er stjórnað af:

a) Aðalfundi

b) Stjórn félagsins.

 6. gr.

Aðalfund skal halda ár hvert eigi síðar en 15. apríl, og skal hann boðaður bréflega eða með öðrum sannanlegum hætti með tíu daga fyrirvara og telst fundarboðunin þá lögleg. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Séu lagabreytingar fyrirhugaðar skal þess getið í fundarboði og jafnframt hvaða greinum laganna fyrirhugað er að breyta. Einfaldur meirihluti ræður niðurstöðu mála, nema lagabreytingar sem þurfa 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn fyrir 1. mars ár hvert

Dagskrá aðalfundar:

1.Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

2.Formaður flytur skýrslu stjórnar um störf á liðnu ári.

3.Gjaldkeri skýrir reikninga félagsins.

4.Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

5.Reikningar bornir undir atkvæði.

6.Árgjald ákveðið.

7.Ummræður og afgreiðsla tillagna.

8.Kosningar samkvæmt 4. grein.

9.Önnur mál.

10.Fundarslit.

7. gr.

Stjórnin skal boða til almenns fundar ef 1/4 félagsmanna sem greitt hafa félagsgjöld ársins óskar þess. Fundurinn skal auglýstur og boðaður eins og um aðalfund væri að ræða.

8. gr.

Stjórn er heimilt að stofna nefndir á hverjum tíma eftir því sem þörf krefur. Nefndir félagsins skulu hafa fullt samráð við stjórnina um mál er varða félagið og halda gerðabók um störf sín.

9. gr.

Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur yfirumsjón með öllum framkvæmdum þess. Formaður boðar stjórnarfundi og stýrir þeim. Skylt er að halda stjórnarfund ef tveir stjórnarmenn óska þess. Varamenn skulu ávallt boðaðir á stjórnarfundi og skulu þeir hafa tillögurétt og málfrelsi. Stjórnarfundur er lögmætur ef þrír stjórnarmenn eru mættir. Stjórnin skal halda gerðabók um störf sín.

10. gr.

Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins, annast greiðslur og innheimtu félagsgjalda. Hann skal fyrir aðalfund ár hvert gera eða láta gera reikningsyfirlit um hag félagsins og leggja reikninga þess endurskoðaða fyrir aðalfund til úrskurðar. Ennfremur skal gjaldkeri félagsins skila reikningsyfirliti fyrir þær nefndir, sem hafa með einhverja fjármuni að gera, og skulu viðkomandi nefndir skila honum reikningsyfirlitum eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.

11. gr.

Ritari geymir bækur og skjöl félagsins, heldur félagaskrár og ritar gjörðabók á fundum.

12. gr.

Ef leggja á félagið niður getur það einungis gerst á aðalfundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða.  Eignir félagsins skulu þá renna til L.B.H.Í.

Samþykkt á aðalfundi félagsins haldinn á Sauðárkróki 18.03.2016 og öðlast þegar gilldi.