Á vef MATÍS má finna frétt um ransóknarverkefni í samstarfi við Jóhönnu geitabónda á Háafelli. Fréttina má nálgast HÉR.

En þar segir:

Um þessar mundir er að hefjast samstarfsverkefni Matís og Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur bónda á Háafelli, í Hvítársíðu, sem er helsti geitabóndi landsins. Verkefnið felst í prófunum á gæðum og nýtingu geitamjólkur, auk þess sem kjötið verður skoðað út frá næringarinnihaldi og nýtingarhlutfalli.

Geitamjólk hefur á síðustu árum notið aukinna vinsælda þar sem hún veldur ekki mjólkurofnæmi né óþoli eins og algengt er með kúamjólk. Talið er að um 3-5% mannkyns geti ekki neytt mjólkurafurða sökum ofnæmis- og óþolsviðbragða og er það algengasta fæðuóþol í heiminum. Geitamjólk hefur mjög svipað næringargildi og kúamjólk, hátt próteinmagn og mikið kalkinnihald, hún hentar því sérstaklega vel fólki með mjólkuróþol.

Hér á landi er ekki hefð fyrir nytjun geitaafurða. Íslenski geitastofninn hefur átt undir högg að sækja og telst vera í útrýmingarhættu þrátt fyrir að vera elsti geitastofn í Evrópu. Í verkefninu verða skoðaðir möguleikarnir á því að framleiða ferska geitamjólk í atvinnuskyni. En slík framleiðsla gæti orðið tekjuöflunarleið fyrir bændur, auk þess sem markviss nýting á geitaafurðum myndi styðja við uppbyggingu geitastofnsins hér á landi.

Gera má ráð fyrir því að íslensk geitamjólk hafi önnur bragðeinkenni en venja er sökum annarar fóðrunar en gengur og gerist. Talið er að íslensk geitamjólk verði eftirsótt vara hérlendis og erlendis, þar sem neysla hennar hefur aukist mjög mikið á síðustu árum. Geitamjólk er almennt dýrari en kúamjólkin.

Í Bretlandi er geitamjólk til dæmis seld fyrir tvöfalt hærra verð en kúamjólk.

Í verkefninu verður mjólkin gerilsneidd eftir mislangan tíma frá mjólkun. Eftir það verður mjólkin send í skynmat. Næringargildi mjólkurinnar verður rannsakað, fitugreining framkvæmd og magn laktósa greint. Einnig verður athugað hvort fitan þráni í mjólkinni þegar hún er fryst í lengri tíma. Hömlur geitamjólkurframleiðslu verða skil-

greindar og þá verður horft til þátta s.s. mjólkunartímabil, magn mjólkur og líffræði. Framkvæmt verður kjötmat á geitakjöti og næringargildi rannsakað.

Til að framleiðsla á geitamjólk verið raunhæf þarf að rannsaka næringargildismun á milli sumars og veturs, hámarka vinnsluaðferðir sem og geymsluþol og öryggi en auk þess þarf að finna hvað takmarkar framleiðsluna. Verkefnið mun standa í tvö ár og niðurstöður verða kynntar í innlendum og erlendum vísindaritum og skýrslum. Áætlað er að verkinu ljúki 31. maí 2014.